Knettir og kátína

Það voru kátir og orkumiklir drengir sem mættu til okkar í Vatnaskóg í gær. Veðrið var sturlað! 20°+ og þeir sem ekki voru úti á bolnum fóru um allt á bumbunni.

Þrátt fyrir lokun báta vegna öldugangs á vatninu, hleyptu foringjar, drengjunum í smá sundsprett og buðu upp á mótorbátsferðir. Frjálsar íþróttir, knattspyrna og Mr. Beast áskorun, fengu mesta athygli. Kvöldvakan gekk vel, en hitinn í salnum tók á. Margir voru að læra nýja söngva, á milli þess sem salurinn hló við skrítlur og látbragð leikfélags Villiandarinnar og hlýddi á spennandi framhaldssögu. Kapellustundin, sem er valfrjáls dagskrárliður að lokinni kvöldvöku var vinsæl hjá ansi mörgum. Fullt var út úr dyrum, 30 manns og góð athygli. Það voru þreyttir sveinar sem lögðust á koddann sinn í gærkvöldi eftir skemmtilegan sumardag. Aðeins bar á heimþrá hjá nokkrum, sem er eðlilegt á fyrsta kvöldi eftir annasaman dag.

Dagurinn í dag

Dagskrá dagsins er stútfull að vanda. Svínadalsdeildin í tuðrusparki heldur áfram þar sem öll 8 borðin keppast um að vinna Deildarbikarinn veglega. Bátarnir verða opnir og hver veit nema það veiðist fiskur! 60m hlaup mun fara fram í frjálsum íþróttum. Ætli einhver muni slá Skógarmet? Það gæti dregið til tíðinda í þessum efnum síðar í vikunni! Mótin í íþróttahúsinu eru í fullum gangi og pool á næsta leiti. Wipeout, tuðrudráttur, gönguferð á ,,Costa del Oddakot,“ ströndina okkar, útileikir og margt fleira. Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi. Búast má við blíðskaparveðri, 18-20°, skýjað og sól með köflum.

Matseðill dagsins

Morgunverður: Morgunkorn
Hádegisverður: Kjúklingaréttur
Síðdegishressing: Bakkelsi af bestu gerð
Kvöldverður: Súpa og nýbakað brauð
Kvöldhressing: Kex og mjólk (áratuga gömul hefð í Vatnaskógi)

Símatími forstöðumanns er opinn milli kl. 11-12 í dag.

Minnum á myndasíðuna okkar sem uppfærist yfir daginn: Myndasíða 8. flokks

Með kveðju,
Gunnar Hrafn, forstöðumaður.