Kvöldleikar og stuð í Skóginum
Það voru þreytt höfuð sem lögðust á koddann sinn í gærkvöld eftir viðburðarríkan dag. Dagskráin var þétt og fjölmargt í boði. Má þar nefna bátarnir, íþróttahúsið og allskonar inni-íþróttamót, knattspyrna og frjálsar íþróttir. Þá var boðið upp á hinn feikivinsæla ævintýraleik The Hunger Games sem fram fór úti í Oddakoti við miklar undirtektir. Kvöldvakan var á sínum stað með tilheyrandi sprelli frá leikfélagi svæðisins, Villiöndinni, og þá var boðið upp á óvæntan síðkvöldsdagskrárlið þar sem borðin ásamt borðforingjum sínum og aðstoðarforingjum, öttu kappi í Dodgeball, nokkurskonar brennó án kónga. Þetta vakti mikla lukku, enda ekki kynnt fyrr en eftir að kvöldkaffinu lauk og spennandi að leika sér frameftir kvöldi.
Morguninn gekk svo ljómandi vel og hófst að venju með morgunstund, sem er stutt dagleg fræðslustund, þennan flokkinn höfum við rætt um náungakærleik.
Dagurinn í dag
Við vonum að norðangolan sem veðurspár gera ráð fyrir blási í burtu gosmóðunni og þokunni sem legið hefur yfir hálfu landinu þessa dagana. Dagskrá dagsins er að öðru leyti stútfull að vanda. Bátarnir opnuðu í kjölfar morgunstundarinnar, hoppukastalar voru dregnir fram í íþróttahúsinu og leikir þeim tengdum verða í boði í dag, þá er gert er ráð fyrir svokölluðu „vatnafjöri“ um miðjan daginn. Fjölmargar íþróttir og leikir verða svo á dagskránni og svo má ekki gleyma þeim fjölbreyttu ævintýrum sem skógurinn í kring býður upp á. Allir ættu því að finna eitthvað við sitt hæfi.
Matseðill dagsins
Morgunverður: Morgunkorn, ávaxtasúrmjólk og bakaður hafragrautur með ávöxtum.
Hádegisverður: Ítalskar kjötbollur
Síðdegishressing: Nýbakað gómsæti úr bakaríi Vatnaskógar
Kvöldverður: Pottréttur og ferskt meðlæti
Kvöldhressing: Kex og mjólk
Símatími forstöðumanns er opinn milli kl. 11-12 í dag.
Minnum á myndasíðuna okkar sem uppfærist regulega:
Myndir úr Vatnaskógi
Með kveðju,
Davíð Örn Sveinbjörnsson, forstöðumaður