Skógarmenn
Við í Vatnaskógi fögnum alltaf 3. degi hvers flokks sérstaklega og lítum á þau sem ákveðin tímamót, því að þeir sem eru að koma í fyrsta skipti í Vatnaskóg teljast nú til Skógarmanna, en til þess þarf maður að dvelja tvo sólarhringa í dvalarflokki í Vatnaskógi.
Til hamingju Skógarmenn!
Dagskráin í fullum gangi
Það er sannkallað líf og fjör í Vatnaskógi þessa dagana, bátarnir eru ávalt vinsælir, smíðaverkstæðið iðar af sköpunargleði og íþróttahúsið nýtur mikillar aðsóknar. Gaman er að sjá hversu vel drengir nýta sér fjölbreyttu dagskrána sem boðið er upp á.
Núna fyrir hádegi munu borðin keppa í Vatnaskógur Olympics en þar er keppt í greinum á borð við borðtenniskörfu, skutlukeppni, kaplakubbaturnar, mjólkurkexáti og margt fleira. Eftir hádegismat býðst þátttakendum að taka þátt í Vatnafjöri þar sem tuðran er fest við mótorbát og brunað um Eyrarvatn, vinsæll og spennandi dagskrárliður sem margir bíða spenntir eftir. Þetta fer samt allt eftir veðri, ef norðaustanáttin er of sterk munum við fresta þessum dagskrárlið fram á morgundaginn. Að loknum kaffitíma tekur svo Lazertag við í skóginum, allt þetta til viðbótar við hefðbundna dagskrá dagsins.
Í gær var búið að rigna á okkur og ákváðum við því í lok dags að poppa popp og horfa á bíómynd – gos í bauk í boði fyrir þá sem vildu. Vel heppnað bíókvöld.
Matseðill
Fimmtudagurinn 7. ágúst
Morgunmatur – Kakó, nýbakað brauð með áleggi
Hádegismatur – Fiskur í raspi, kartöflur, salat og kokteilsósa
Kaffitími – Hjónabandssæla, snúðar og hlunkakökur
Kvöldmatur – BURGERS og með því
Kvöldkaffi – Ávaxtaveisla
Miðvikudagurinn 6. ágúst
Morgunmatur – Morgunkorn og súrmjólk
Hádegismatur – Lambakjöt, kartöflugratín, sósa og salat
Kaffitími – Skúffukaka, kókoskúlur og kryddbrauð
Kvöldmatur – Pastaréttur
Kvöldkaffi – Pólókex og mjólkurkex
Myndir úr flokknum munu birtast inn á þessa síðu: Myndir úr Vatnaskógi
Meira síðar.
Virðingarfyllst,
Hreinn Pálsson, forstöðumaður.