Vikan þýtur fram hjá þegar mikið er um að vera. Það styttist í annan endann á 6. flokki.
Dagskráin heldur áfram og mikið um að vera á öllum vígstöðvum.
Dagurinn byrjaði með morgunmat, fánahyllingu og biblíulestri. Því næst spiluðu foringjarnir við Landsliðið og Stjörnuliðið. En knattspyrnuforinginn hafði valið 12 stráka í hvort lið. Foringjarnir máttu hafa sig alla við en náðu þó að knýja fram sigur 6-5. Þess má að vísu geta okkur til hróss að við vorum bara 6 á móti 12
Dagskránni var svo haldið áfram eftir hádegið og var ýmislegt í boði yfir daginn. Hvassviðrið gekk loksins niður og nú var hægt að lána bátana. Mikil ánægja var með það og ég held að flestir hafi reynt fyrir sér á einhverskonar bátum. Sumir náðu í veiðistangirnar sínar og viti menn, það veiddust tveir fiskar. Ein bleikja og einn urriði. Það verður gaman að sjá hvort að þeir nái fleirum á land.
Einnig var boðið upp á Vatnaskógarvíkinginn sem er aflraunakeppni. Svo fór fram kringlukast ásamt 400 m. hlaupi. Innifótbolti, þythokkímót ásamt billiard var líka á meðal atriða sem hægt var að dunda sér við.
Eftir kvöldmat gátu þeir svo valið um að horfa á HM sem margir nýttu sér. Eins og flestir vita þá var þetta frábær leikur. Hinir sem ekki nenntu að horfa, skelltu sér þá bara út á bát, inn á smíðaverkstæði eða í íþróttahúsið á meðan.
Kvöldvakan fór vel fram, þar sem að haldin var hæfileikasýning. Nokkrir strákarnir sýndu einhvern hæfileika sem þeir hafa. Þetta tókst mjög vel og greinilga miklir hæfileikamenn hér á ferð. Arnar hélt áfram með framhaldssöguna sem verður alltaf meira og meira spennandi.
Við enduðum kvöldið svo með guðs orði og þeir sem vildu gafst kostur á því að fara í kapelluna að loknu kvöldkaffi.
Ró var komin á um kl. 23:00
Myndir hér.
Árni Geir