Vatnaskógi, fimmtudaginn 22. júlí 2010.
Drengirnir sváfu mjög vel aðra nóttina sína í hinum fagra Vatnaskógi enda þreyttir eftir langan og viðburðarríkan dag í gær. 30-40 Skógarmenn bættust í hópinn í morgun því skv. lögum Skógarmanna verður maður Skógarmaður eftir að hafa dvalið tvær nætur í flokki í Vatnaskógi. Við hinir buðum þá velkomna í hópinn og fögnum auðvitað þessum áfanga sérstaklega. Annars var morguninn var hefðbundinn. Þennan morguninn var hins vegar heitt kakó ásamt smurðu brauði í morgunmat. Það er gömul hefð hérna í Vatnaskógi að bjóða upp á heitt kakó í morgunmat. Er það gert 2-3 í hverjum flokki. Þegar ég var lítill strákur í flokki hérna í Vatnaskógi var heitt kakó á hverjum einasta morgni J. Í hádegismat var steiktur fiskur ásamt kartöflum og kokteilsósu og í kvöldmat var pastaréttur. Kaffi er alltaf klukkan þrjú á hverjum degi og þá eru alltaf þrjár tegundir í boði fyrir strákana sem Kristín eldhússtúlka var búinn að baka um morguninn en hún er bakarinn okkar í þessum flokki. Í dag var boðið upp á kókoskúlu, sjónvarpsköku og ilmandi ferskan kanilsnúð. Strákarnir eru alltaf sérstaklega spenntir fyrir því að vita hvað sé á boðstólnum í kaffitímanum. Í dag hefur verið boðið upp á nokkrar greinar í frjálsum íþróttum eins og 400 m hlaup og 60 m hlaup. Einnig hafa bátarnir verið vinsælir. Svo var hægt að pútta í eina golfholu, fara í kassabílarallý, skreppa í heitu pottana okkar sem eru staðsettir bakvið íþróttahúsið okkar eða fara í hoppukastalana. En þeir voru í boði í gærkvöldi eftir kvöldmat og voru mjög vinsælir. Svínadalsdeildin í knattspyrnu er svo í fullum gangi og eru leiknir yfir 10 leikir í henni á hverjum degi en leikirnir eru 2×10 mínútur. Kvöldvaka var svo kl. 21 með hefðbundnu sniði og lauk henni tuttugu mínútur yfir tíu en þá fóru drengirnir í háttinn.
Í dag hefur verið fínt veður þó ekki hafi verið rjómablíða eins og síðustu tvo daga. Hæg vestanátt, alskýjað og hiti 12-15°C. Smá súld kom þrisvar sinnum yfir daginn, annars var alveg þurrt.
Kær kveðja,
Salvar Geir forstöðumaður.
P.s. Heimasíða KFUM&KFUK lá niðri í dag (föstudag) vegna bilunar hjá hýsli vorum. Því birtist þessi frétt svona seint. Við biðjum velvirðingar á því. Enn er bilun á myndasíðunni okkar og því hefur ekki verið hægt að setja nýjar myndir inn. En þær verða settar inn um leið og við getum.