Vatnaskógi, fimmtudaginn 11. ágúst 2011.
Veðrið heldur áfram að leika við okkur Skógarmenn. Í gær, þegar ég vaknaði snemma um morguninn var Eyrarvatn spegilslétt og sólin brosti sínu blíðasta til okkar. Eftir morgunmat var fáninn hylltur um leið og hann var dreginn að hún, en það er gömul hefð hér í Vatnaskógi að hafa fánahyllingar, allt frá því að fyrsti flokkurinn kom hingað gangandi í ágúst 1923.
Í hádegismat var steiktur fiskur og kartöflubátar og tóku drengirnir vel til matar síns. Eftir hádegi var sannkallað vatnafjör við bryggjuna og bátaskýlið okkar. Allir drengir sem vildu fengu drátt á tuðrunni okkar úti á vatni og fannst þeim það öllum mjög skemmtilegt. Við leggjum mikla áherslu á öryggi og að sjálfsögðu voru allir í björgunarvestum. Einnig mátti vaða í fjörunni við bátaskýlið, leika sér og hoppa á sérstöku vatnatrampólíni.
Eftir kaffi var ýmis dagskrá í boði, m.a. var boðið upp á víðavangshlaup. Þá er hlaupið í kringum Eyrarvatn og er leiðin um 4,2 km. Leiðin liggur m.a. eftir stíg í gegnum skóginn og yfir tvo ósa. Þetta er mjög skemmtilegt hlaup og mikið ævintýri. 10 drengir tóku þátt.
Í kvöldmat var skyr og smurt brauð. Ýmis dagskrá var í boði eftir kvöldmat. Heitu pottarnir okkar bakvið íþróttahúsið voru í boði og það voru margir sem nýttu sér það og skoluðu af sér skítinn í blíðunni eftir viðburðarríkan dag.
Við breyttum út af venjunni um kvöldið. Í staðinn fyrir að fara í kvöldkaffi í matskálanum okkar fórum við með drengina í Skógarkirkju, sem er laut í skóginum. Þar höldum við stundum kvöldvökur ef veðrið er gott í staðinn fyrir að vera með þær í salnum okkar í Gamla skála. Við kveiktum lítinn varðeld og þar var sungið við eldinn við gítarundirleik. Einnig voru skemmtiatriði og hugleiðing um miskunnsama samverjann. Svo gengum við niður í fjöru við vatnið og þar var kveikt í brennu sem logaði glatt um leið og drengirnir gæddu sér á kvöldkaffinu. Svo var stutt bænastund í kapellunni í boði fyrir svefninn fyrir þá sem vildu það. Fóru drengirnir í háttinn rétt fyrir kl. ellefu.
Í dag var rjómablíða. Frá hádegi og fram eftir degi var vestan hafgola en annars var hægur vindur og heiðskírt og hiti 16-18°C. Um kvöldið var logn og skýjað og milt, hiti um 12°C.
Myndir frá 3. degi eru komnar inn á Netið. Sjá hér:
http://www.kfum.is/nc/myndir/?g2_itemId=151168

Kær kveðja,
Salvar Geir,
forstöðumaður 10. flokks.
salvar@vatnaskogur.net