Hér er yndislegt að vera, enda búið að vera ótrúlegt veður síðustu tvo daga. Stór hluti drengjanna skellti sér út í eða á vatnið í gær. Margir hoppuðu í vatnið og var það greinilega hressandi, sumir létu það nægja að vaða og aðrir tóku sundsprett meðfram bryggjunni. Þá voru bátarnir vel nýttir allan daginn.

Boðið var upp á svokallaða orrustu við mikinn fögnuð drengjanna. Orrusta virkar þannig að tvö lið keppast og eiga að reyna að kasta mjúkum boltum í liðsmenn mótherjanna. Fyrir leikinn var settur upp sérstakur völlur í íþróttahúsinu sem samanstendur af nokkrum uppblásnum hoppuköstulum og dýnum.

Einnig fengu strákarnir að hjálpa til við hönnun á Wipe-out braut sem var síðan tekin í notkun seinna um daginn, þar var tími þátttakendi skráður. Í þrautinni þurftu drengirnir meðal annar að draga kassabíl, renna sér niður rennibraut, hlaupa fimm hringi í kring um prik, róa tíu sinnum á bát sem var settur upp á land, þrautin endaði á því að keppendur renndu sér út í kalda laug. Að sjálfsögðu var sprautað vatni á drengina á meðan þrautin var sigruð.

Þá var boðið upp á víðavangshlaup, þar sem hlaupið er í kringum vatnið. Ekki skemmdi það fyrir að þeir sem yrðu á undan spretthörðum foringja gátu unnið sér inn íspinna.

Á kvöldvökunni fengum við tvo gestaleikara alla leið frá höfuðborginni sem fluttu ógleymanleg leikrit. Framhaldssagan var á sínum stað og drengirnir fengu að heyra frásagnir frá kristniboði í Kenýu og hversu dýrmætir drengirnir væru. Það var Bogi foringi sem sagði frá þessu.

Nú er gott að vera í Vatnaskógi, hér er logn og hlýtt. Í morgunmatnum var óskað eftir sjálfboðaliðum til að leika í leikriti á morgunstundinni. Leikritið fjallaði um  miskunsama Samverjann og stóðu leikararnir sig frábærlega.

Á morgun er síðan veisludagur og við minnum á að heimkoma er á laugardag um kl. 17, að öllu óbreyttu.

Nýjar myndir koma inn síðar í dag.

Kveðja úr skóginum,

Ásgeir Pétursson, forstöðumaður