Gærdagurinn var uppátækjasamur hjá drengjunum. Við fengum svar við okkar bænum og norðaustanáttin hætti. Veðrið var skýjað, 12 gráður og logn. Bátarnir opnuðu því við mikinn fögnuð drengjanna og voru þeir vinsælir. Maturinn hér hefur verið reglulega góður og borða strákarnir flestir mjög vel. Íþróttahúsið heldur áfram að vera vinsæll staður til að vera á. Haldið var hraðmót í Brennó þar sem foringjar spiluðu með borðunum sínum og lukkaðist það einstaklega vel. Einnig var sett upp hástökksgrind og kepptu drengirnir í hástökki . Eftir kvöldmat skoruðu foringjar á drengina í fótbolta og var spilaður skemmtilegur fótboltaleikur. Kvöldvakan stóð fyrir sínu en eftir hana var farið í Harry Potter ratleik um svæðið þar sem þeir fengu að kynnast töfraheiminum, læra nokkra galdra og há svo lokabaráttu við Voldemort. Allir fóru sáttir og sælir að sofa kl 23:00 og sváfum við því hálftíma lengur í morgun. Sú heimþrá sem komið hefur upp í flokknum virðist að mestu leyti búin og hefur hún færst yfir í tregablandna tilhlökkun. Drengirnir hlakka mikið til að hitta mömmu og pabba en á sama tíma þá vilja þeir ekki að dvölinni sé að ljúka. Nokkrar myndir bættust við í myndasafnið okkar í morgun.
Ég vil benda á að brottfarardagur er á morgun, sunnudaginn 11. ágúst. Rúturnar renna í hlað kl 17:00 að Holtavegi 28.
Kveðja. Arnór, forstöðumaður.