Í gær var margt í gangi eins og venjulega hjá okkur í Vatnaskógi. Að lokinni hefðbundinni dagskrá var boðið upp á útilegu í skóginum. Útilegan hófst með því að við fórum öll út í skóg þar sem kveiktur var varðeldur og gerð var tilraun til að poppa popp á eldinum. Eftir að hafa sungið mikið og haft gaman fóru þeir sem vildu aftur inn í skála og aðrir héldu inn í skóg þar sem búið var að slá upp tjaldbúðum. Strengt var plast á milli trjáa sem virkaði sem þak og einnig voru settir dúkar á jörðina þar sem átti að sofa. Það var hlýtt í veðri en þegar undirbúningur fyrir háttinn hófst byrjaði að rigna og regnið stoppaði ekki fyrr en í morgun þegar við vorum að vakna.
Sumir vöknuðu blautir og kaldir en allir vöknuðu sem skógarmenn eða skógarkonur, en skilyrðið fyrir því er að hafa dvalið tvær nætur í Vatnaskógi.
Í dag var síðan boðið upp á ævintýraferðir á vatninu, þar sem áhugasamir voru dregnir á tuðrunni. Einnig var boðið upp á hástökk, sem var gríðarlega vinsælt. Þá var hægt að fara í dýraleikinn, spjalla saman um hin ýmsu málefni, borðtennismótið hélt áfram, ásamt mörgu öðru.
Myndir úr flokknum má finna á: http://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/sets/72157635055612579/
kveðja úr Lindarrjóðri
Ásgeir Pétursson, forstöðumaður