Þegar drengir hafa dvalið í Vatnaskógi í tvær nætur í hefðbundnum dvalarflokki þá tilheyra þeir hópi Skógarmanna KFUM, en í hópi Skógarmanna er rétt um 10% íslenskra karlmanna. Skógarmenn finnast víða, á heimsmeistarakeppninni í knattspyrnu, við rannsóknir í frægustu háskólum heims og hvar annars staðar sem Íslendingar dúkka upp.
En það er enn ein nótt í að flestir drengirnir sem hér dvelja geti kallað sig þessu sæmdarheiti. Fyrsta nóttin gefur þó góð fyrirheit um að á morgun verði þeir allir orðnir Skógarmenn. Þrátt fyrir að örfáir að drengjunum hefðu fengið snert af heimþrá og tveir til þrír hefðu þurft smá uppörvun í gærkvöldi í samráði við foreldra, þá gekk svefninn vel.
Annars er framundan spennandi dagur með fjölbreyttri dagskrá. Nú þegar hafa drengirnir getað farið í amerískan skotbolta (dodgeball), langstökk án atrennu, farið á báta, unnið í smíðastofunni, skráð sig í borðtennismót og spilað knattspyrnu. Framundan í dag eru fleiri frjálsar íþróttir, brandarastund og tónlistarstund, auk þess sem smíðaverkstæðið verður opið í allan dag. Því til viðbótar eftir kaffi verður drengjunum boðið að horfa á HM leik á risaskjá auk þess sem boðið verður upp á leikjafjör og stemmningu í íþróttahúsinu.
Því miður gleymdist að taka myndir í gær og í morgun, en það verður bætt snarlega úr því eftir hádegismat og vonandi komum við einhverjum myndum á netið í kringum fjögur í dag.