Í gær fóru strákarnir í hinn gífurlega vinsæla hermannaleik sem að þessu sinni var haldinn í Oddakoti. Það er óhætt að segja að drengirnir hafi skemmt sér frábærlega í leiknum, enda veðrið gott og skógurinn fallegur.
Í morgun vorum við síðan með Skógarmannaguðsþjónustu í sal Gamla Skálans. Framundan er knattspyrnuleikur starfsmanna og drengja. Þá verður boðið upp á langstökk, vítakeppni, skógargöngu og -leiki, báta, smíðaverkstæði og ýmislegt fleira. Í kvöld verður síðan veislukvöld með fínum mat og sérstakri hátíðarkvöldvöku.
Drengjunum líður vel, en við starfsmennirnir ræddum í morgun um að líklega hefðu þeir gott af aðeins meiri svefni eftir viðburðaríka daga. Við ákváðum þó eftir nokkrar umræður að halda okkar striki og vekja á sama tíma og venjulega, enda margt sem þarf að komast að í dag. Það er því hægt að lofa því að það verða þreyttir drengir sem koma heim til sín seinnipartinn á morgun.
Við í Vatnaskógi erum stöðugt að reyna að gera gott starf enn betra. Þess vegna viljum við endilega fá að vita um það sem drengjunum fannst ganga vel og eins það sem kannski var síðra. Ef drengirnir nefna eitthvað sérstakt eftir að þeir koma heim sem gæti hjálpað okkur til að gera ennþá betur, má endilega senda tölvupóst á elli@vatnaskogur.net eða hringja á skrifstofu KFUM og KFUK við Holtaveg.