Því miður verður enginn starfsmaður við símann meðan á símatíma stendur í dag, föstudag, vegna dagskrár með drengjunum. Það verður hægt að ná sambandi ef eitthvað er, milli kl. 15:30-16:30.
Dagskráin í gær gekk vel og þrátt fyrir rigningu og þónokkuð norðaustanrok seinnipartinn, skemmtu drengirnir sér vel í íþróttahúsinu og á smíðaverkstæðinu. Nokkrir drengir sýndu hæfileika sýna á kvöldvöku og vöktu mikla lukku.
Framundan í dag er fjölbreyttur dagur. Hluti drengjanna mun etja kappi við lið foringja í knattspyrnu núna fyrir hádegi. Eftir hádegi er stefnt á stóran alsherjar ratleik og eftir kaffi verður m.a. keppt í víðavangshlaupi kringum Eyrarvatn (4,2 km) og boðið upp á heita potta. Kvöldið hefst síðan á veislukvöldverði kl. 18:30 sem verður fylgt eftir með hátíðarkvöldvöku, með fjölbreyttri dagskrá, m.a. Biblíuspurningakeppni, lokum framhaldssögunnar, verðlaunaafhendingu, leikritum, Sjónvarpi Lindarrjóður og Biblíusögu. Það er óhætt að lofa mikilli gleði og spennu í kvöld.
Við náðum að setja inn örfáar myndir núna í morgunsárið frá síðustu dögum í flokknum.
Fræðsluinnlegg dagsins – Skipulag dagsins
Ég hef nefnt hvernig dagurinn mótast af matar- og kaffitímum hér í Vatnaskógi. Þannig skiptist leiktími drengjanna í fjórar blokkir. Fyrsta blokkin er eftir Biblíulestur og fyrir hádegismat og er rétt um 1,5 klst og þá bjóðum við að öðru jöfnu upp á 4-5 dagskrárliði sem drengirnir geta tekið þátt í með starfsfólki. Milli hádegisverðar og kaffitíma er boðið upp á 3-4 dagskrártilboð og eins eru 3-4 dagskrártilboð í gangi eftir kaffi fram að kvöldmat. Frá kvöldmat og fram að kvöldkaffi er í upphafi flokka reynt að hafa 5-6 hluti í gangi í einu, en síðan fækkum við tilboðum á þeim tíma þegar líður á flokkinn. Til viðbótar við skipulögðu dagskrána hvetjum við drengina til að leika sér sjálfir, t.d. með að nýta sér skóginn í frjálsum leik.
Nokkrum sinnum í hverjum flokki bregðum við út af þessu og bjóðum upp á stærri viðburði sem allir drengirnir taka þátt í s.s. hermannaleik og ratleik sem verður í boði síðar í dag.