Í gærkvöldi eftir kvöldkaffi var blásið til miðnæturævintýraleiksins Flóttinn úr Vatnaskógi. Drengirnir notuðu óljósar vísbendingar til að leita að vistum, áður en þeir freistuðu þess að flýja upp að hliðinu í skóginum og öðlast frelsi. Reyndar bentu nokkrir drengir á í upphafi leiksins að þeir hefðu takmarkaðan áhuga á að fara héðan, enda er búið að vera mikið fjör undanfarna daga.
Leikurinn gekk mjög vel og við erum að setja nýjar myndir frá leiknum á myndasíðu Vatnaskógar.
Framundan næstu þrjá sólarhringa er fjölbreytt dagskrá. Í dag stefnum við að hástökkskeppni eftir hádegi, það verða bátar og köngulóarfótbolti, við vorum að opna heitu pottana fyrir hádegi og eins er spjótkastkeppni í gangi á íþróttavellinum.
Í dag fáum við síðan heimsókn frá 13-15 ára stúlkum í unglingaflokki í sumarbúðunum í Ölveri sem taka þátt í dagskrá milli 13:30 og 15:30. Drengirnir eru misspenntir fyrir heimsókninni, sumir töluðu um að fara í sturtu og klæða sig upp meðan aðrir sögðu ojj, stelpur.