Veislukvöldinu lauk ekki fyrr en rétt um kl. 23:00 og síðustu drengir voru komnir í ró rétt fyrir miðnætti í gær. Dagskrá dagsins verður síðan með hefðbundnu sniði en eftir morgunmat, fánahyllingu og skógarmannaguðsþjónustu verður blásið til orustu í íþróttahúsinu, auk þess sem Draumaliðið og Stjörnuliðið keppa í knattspyrnu.
Í hádeginu verður síðan blásið til pizzaveislu áður en drengirnir fara og pakka farangrinum sínum. Um kl. 14:15 verður síðan lokastund í Gamla skála og eftir lokastundina verður lengsti kaffitími vikunnar þar sem við auglýsum eftir eigendum af fötum í óskilum.
Rúturnar halda úr Vatnaskógi kl. 15:50 og er áætluð heimkoma við KFUM og KFUK húsið við Holtaveg um kl. 17. Þeir foreldrar sem sækja drengina í Vatnaskóg þurfa því að koma í síðasta lagi kl. 15:45.
Hirðljósmyndari Vatnaskógar tók nokkrar myndir af hátíðarkvöldvökunni í gær.
Við í Vatnaskógi erum stöðugt að reyna að gera gott starf enn betra. Þess vegna viljum við endilega fá að vita um það sem drengjunum fannst ganga vel og eins það sem kannski var síðra. Ef drengirnir nefna eitthvað sérstakt eftir að þeir koma heim sem gæti hjálpað okkur til að gera ennþá betur, má endilega senda mér tölvupóst á elli@vatnaskogur.net eða hringja á skrifstofu KFUM og KFUK við Holtaveg.