Þrátt fyrir að lokavika sumarsins sé töframannanámskeið, aðeins fjórir dagar, drengirnir séu óvenjufáir og rokið óvenjumikið, þýðir það alls ekki að við gefum afslátt á hefðbundinni dagskrá. Dagurinn í gær byrjaði með sameiginlegri dagskrá í íþróttahúsinu, þar sem farið var í hvers kyns leiki, ásamt því að boðið var upp á borðtennis, þythokký, stangatennis og ýmislegt fleira. Eftir kaffi var síðan komið að frjálsum íþróttum þar sem drengjunum var boðið að spreyta sig á langstökk, kúluvarpi, 60 metra hlaupi og hástökki.
Eftir kvöldmat var síðan smíðaverkstæðið opið og íþróttahúsið, auk þess sem drengjunum var boðið í stutta siglingu á björgunarbát svæðisins.
Á kvöldvökunni var sungið af krafti, við fengum leikrit og Bogi foringi sýndi töfrabrögð til að útskýra fyrirgefningarhugtakið. Að lokinni framhaldssögu fóru strákarnir upp í rúm kl. 22:50 og voru flestir sofnaðir eftir viðburðaríkan dag rétt eftir kl. 23:00.
Dagurinn í dag verður enn fjörugri. Fyrir hádegi er boðið upp á knattspyrnu, borðtennis- og þythokkímót, auk smíðaverkstæðis. Töframannaleiðbeinendur mæta á svæðið um hádegi og byrja sína kennslu og þess utan stefnum við á gönguferðir, hugsanlega mýrarbolta og hver veit hverju foringjarnir taka upp á þegar líður á daginn.
Myndir eru á leiðinni á vefinn og hægt verður að nálgast þær á myndasvæði Vatnaskógar undir 11. flokkur síðar í dag.