Í Vatnaskóg eru komnir tæplega 40 drengir til að njóta dvalarinnar í ævintýraflokki. Flokkurinn fer vel af stað og hefur ýmislegt verið í boði þennan fyrsta sólarhringinn. Má þar nefna knattspyrnu, dodgeball, fótboltaspilsmót, borðtennismót, smíðaverkstæði, gönguferð um staðinn, hunger games leikinn, stinger, 60 metra spretthlaup, langstökk án atrennu og margt fleira. Bátar hafa ekki getað verið opnir hingað til vegna töluverðs norðaustanvinds. Ráðgert er þó að bjóða upp á ferðir út á vatn á mótorbátnum okkar eftir hádegi til að leyfa þeim að prófa vatnið. Íþróttahúsið er alltaf opið og þar er hægt að leika sér í ýmsum leikjum og notfæra sér bolta, borðtennisborð, poolborð, fótboltaspil eða fá bók eða syrpu lánaða til að lesa.
Í morgun var biblíulestur og fræðsla um Biblíuna, hvað hún er, hvað þar er að finna og hvernig kristnir menn nota hana. Einnig voru boðorðin 10 kynnt fyrir þeim sem og postullega trúarjátningin.
Í kvöld er ráðgert að breyta aðeins út frá hefðbundinni dagskrá og fara með hópinn inn í Skógarkirkju, sem er lítið skógarrjóður með eldstæði, og grilla þar pylsur yfir eldi í kvöldmat. Kvöldvaka verður svo haldin undir berum himni og útilegustemmning tekur við á öðrum stað. Þeir sem hafa áhuga verður svo boðið að sofa undir berum himni í nótt. Drengirnir fá ekki að vita af þessu fyrr en um kvöldmatarleytið.
Fyrstu myndir eru komnar inn á myndasíðuna okkar.
Minni líka á facebook-síðu Vatnaskógar
kær kveðja,
Hilmar Einarsson, forstöðumaður