Ævintýraflokkur er senn á enda. Í gær var jólahátiðin haldin hátíðlegt við mikinn fögnuð. Drengirnir voru vaktir með ljúfum jólasöng af foringjunum og haldið var í jólamorgunmat: kakó með rjóma, brauð og smákökur. Eftir morgunfræðslu og biblíulestur var piparkökubakstur en kökurnar voru síðan snæddar um kvöldið.  Hádegismaturinn var í jólabúning, rautt skyr með grænni og gulri mjólk. Eftir hádegi horfðu nokkrir á jólamynd á meðan aðrir æfðu helgileik úr jólaguðspjallinu til að sýna um kvöldið. Sannkölluð jólaveislukvöldvaka var haldin um kvöldið þar sem jólalög voru sungin í bland við önnur skógarmannalög. Bikarar voru afhentir fyrir sigra í keppnum flokksins, úrslit í biblíuspurningakeppni fóru fram, leikrit var sýnt og margt fleira. Fréttir af jólahátiðinni hafði borist til jólasveina sem kíktu í heimsókn á kvöldvökuna. Spjölluðu þeir við drengina, sýndu töfrabrögð og afhentu jólapakka.  Mikil ánægja var meðal drengjanna og skemmtu allir sér konunglega.

Í þessum skrifuðu orðum eru drengirnir að spila orrustuleik úti í íþróttahúsi en það er skemmtilegur skotleikur með mjúkum dagblaðskúlum. Kaffitími er klukkan 15 og verða rútur lagar af stað í bæinn um eða rétt fyrir fjögur. Áætluð heimkoma á Holtaveginn er ekki seinna en kl. 17. Gott er að ef þeir sem sækja drengina upp í Vatnaskóg séu komin ekki seinna en 16:45.

Minni á nýjar myndir og Facebook síðu Vatnaskógar

 

kær kveðja,
Hilmar Einarsson, forstöðumaður