Það má segja að það hafi verið mikið fjör hjá okkur í gær enda margir orðnir þreyttir og getur það tekið á að vera svona marga daga að heiman. Strákarnir voru fljótir að sofna í gær eftir viðburðaríkan dag.
Meðal dagsrárliða í gær voru skutlugerð, þar sem strákarnir fengu að hanna sína eigin skutlu fyrir skutlukeppni. Þegar búið var að prófa allar mögulegar útgáfur af skutlum var haldið út í íþróttasal þar sem keppnin fór fram. Keppnin var gríðarlega spennandi og mátti sjá glæsilega hannaðar skutlur svífa tugi metra yfir salinn. Á endanum stóð þó einn uppi sem sigurvegari.
Margir hafa nú hafist handa við að smíða ýmiss konar dýr á smíðaverkstæðinu sem hafa síðan verið máluð í listasmiðjunni. Sést hefur til svína, einhyrninga, hesta og fleiri dýra.
Nú er svokallaður veisludagur hjá okkur í Vatnaskógi, en það er síðasti heili dagurinn hér áður en strákarnir halda heim. Brottför héðan er á morgun um kl. 13. Veisludagur er frábrugðinn öðrum dögum að því leyti að þá fáum við fínan mat og höldum síðan á veglega veislukvöldvöku. Strákarnir eru hvattir til að fara í hrein föt og skella sér jafnvel í heitu pottana eða í sturtu fyrir kvöldmatinn.
Það má reikna með að rútan komi í bæinn um kl. 14 á morgun, laugardag. Starfsfólk flokksins hefur gert sitt allra besta til að strákarnir fari héðan með góðar minningar og vonumst við til sjá drengina aftur á næsta ári.
Fyrir hönd starfsfólks í flokknum þökkum við foreldrum kærlega fyrir að hafa sent drengina sína í Gauraflokk í Vatnaskógi.
Myndir úr flokknum má finna hér og verður nýjum myndum bætt við í dag: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157656690707799
Með kveðju
Ásgeir Pétursson