Í gær mættu 53 hressir strákar uppí Vatnaskóg. Drengirnir höfðu nóg að gera og skelltu sér meðal annars á báta, fóru í fótbolta, frjálsar íþróttir, smíðaverkstæðið var opið ásamt íþróttahúsinu en þar var haldið heljarinnar borðtennismót ásamt öðru skemmtilegu. Þá var botninn sleginn úr deginum með hressandi kvöldvöku en þar var sungið, trallað, brugðið á leik og hlýtt á æsispennandi frammhaldssögu og góða hugleiðingu um Guðs orð. Í dag er 17. júní og að sjálfsögðu verður öllu til tjaldað í tilefni dagsins. Sérstakur veislumatseðill verður á boðstólunum en þar kennir ýmissa grasa meðal annars fengu drengirnir bakaðann hafragraut með bönunum, eplum og kanil í morgunmat ásamt hinu hefðbundna morgunkorni og súrmjólk. Þá verður bökuð stórglæsileg 17. júní kaka ásamt vöfflum og kleinum sem við bíðum í ofvæni að smakka og í kvöldmatinn dugir ekkert minna en úrvals Vatnaskógarhamborgarar grillaðir að hætti hússins. Hér að neðan má sjá link á myndasíðuna okkar þar sem þið getið séð myndir af fyrstu dögunum og allri gleðinni.
Með 17. júní- og Skógarmannakveðju
Arnar Ragnarsson
https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157668912560360