Í gær horfðu drengir og starfsfólk saman á Ísland-Króatíu. Stemningin hér í HM stofunni í Birkiskála var frábær og gleðin þegar Gylfi Þór Sigurðsson skoraði var ósvikin. Í hálfleik var boðið upp á pylsupartý við mikla kátínu drengjanna. HM stofan ómaði af hvatningarópum, vonbrigðastunum og baráttusöngvum á meðan leik stóð.
Annars hefur hitt og þetta verið í boði í dag. Frjálsíþróttaforingi bauð upp á víðavangshlaup (4.2 km í kringum Eyrarvatn) og 60m hlaup. Þá var spilaður skotbolti, stangatennis, boðið upp á báta og smíðaverkstæði. Knattspyrnumót svæðisins er í fullum gangi, íþróttahúsið hefur verið opið og drengirnir hafa gripið í spil. Framundan í dag er síðan fjölbreytt dagskrá þar sem allir drengirnir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi.
Um leið og drengirnir hafa fundið sig betur heima hér í skóginum, hefur aðeins borið á núningi milli strákanna enda 87 drengir á staðnum. Það hefur þó ekki komið til stórra árekstra. Þessi núningur hafði hins vegar einhver áhrif á stigagjöf í hegðunarkeppninni, en stigin voru hlutfallslega færri annan daginn, en þann fyrsta. Þó vissulega gangi mjög vel hjá allflestum drengjunum að fylgja reglum og koma vel fram við náungann.
Ég hef þegar nefnt pylsukvöldverðin, en í hádegismat var dýrindis karrýkjúklingaréttur sem naut mikilla vinsælda.
Myndir frá flokknum birtast á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157695235709162.
Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.