Í gær, þriðjudag, voru spilaðir fjölmargir leikir í Svínadalsdeildinni, knattspyrnumóti Vatnaskógar. Þá voru bátarnir lánaðir út meiripart dagsins. Borðtennismótið var klárað, skákmót hófst og tímaskynskeppnin var í gangi allan daginn. Nokkrir drengir fundu sér tíma til að lesa syrpur og slaka á, meðan aðrir kepptu í 400 metra hlaupi og kúluvarpi. Smíðaverkstæðið okkar er sívinsælt og fótboltaspilin og poolborðin í íþróttahúsinu eru alltaf eftirsótt.
Í hádegismat í gær var ofnbakaður fiskur í brauðmylsnu með kúskús og grænmeti og í kvöldmat buðum við drengjunum upp á pylsur meðan horft var á leik Frakklands og Belgíu. Drengirnir entust reyndar fáir yfir heilum fótboltaleik og þegar þeir höfðu lokið við pylsurnar fóru þeir í íþróttahúsið, fundu sér fótbolta til að taka út á völl eða skiptust á í kassabílunum okkar sem njóta alltaf vinsælda.
Á kvöldvökunni var leikrit og framhaldssaga, auk þess sem drengirnir heyrðu söguna um Davíð og Golíat.
Myndir frá flokknum birtast á slóðinni https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157668955720317.
Það er metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi getur þú sent tölvupóst á elli@vatnaskogur.net.