Áður en hin eiginlega frétt um síðastliðinn dag kemur, þá viljum við minna á að foreldrum/forráðamönnum og öðrum nánum aðstandendum, svo sem systkinum, er boðið að líta í heimsókn hingað upp í Vatnaskóg á morgun milli kl. 14-16. Þá munum við bjóða upp á sérstaka gönguferð um svæðið og einnig verður hægt að rölta um svæðið og taka þátt í annarri auglýstri dagskrá með strákunum sínum. Seinna í dag eða á morgun um hádegið, munum við síðan birta nánari dagskrá fyrir þessa heimsókn svo að endilega fylgist vel með. Ef þið stefnið að því að líta við, þá mættuð þið senda okkur línu á benjaminrs@hi.is til að gefa okkur betri mynd af því hversu margir verða með í kaffinu kl. 15:30-16.
En að öðrum fréttum. Í morgun var sérstökum áfanga náð, a.m.k. fyrir þá drengi sem eru í fyrsta sinn í dvalarflokki hér í Vatnaskógi, en eftir að hafa sofið hér tvær nætur þá eru þeir formlega orðnir Skógarmenn. Að því er mér skilst eru um 10% íslenskra karla Skógarmenn og þó nokkrar konur einnig, þó að hlutfallið hjá þeim sé ekki jafn hátt.
Í gær lék veðrið við okkur og var því ákveðið að haldið i hinn geysivinsæla hermannaleik út í Oddakoti, þar sem Oddverjar og Haukdælir áttu sína orrustu. Undir lokin létu síðan skógarskrýmslin Húgó og Jagó sjá sig og var markmiðið þá að ná höttunum þeirra af þeim. Eftir hermannaleikin nutum við þess síðan að vera út í Costa del Oddakot, sem af mörgum Skógarmönnum er talin ein besta baðströnd á Íslandi. Margir fóru að vaða í vatninu yfir daginn og var mikið fjör hjá bátunum í gær, enda frábært veður.Svínadalsdeildin í knattspyrnu fór einnig af stað og er fyrstu umferð hennar að ljúka núna þenna morguninn.
Í hádeginu í gær fengum við ljómandi góðan fisk í raspi og í kaffinu var boðið upp á súkkulaðiköku með kremi, kanillengju og bollu sem hægt var að láta smjör og ost á. Í kvöldmatinn var síðan pasta með hvítlauksbrauði með osti og loks voru ávextir (epli, bananar og appelsínur) í kvöldhressingu.
Við stefnum að því að birta fréttir úr Vatnaskógi hvern dag í kringum hádegið (rétt fyrir eða eftir hádegismat) með helstu upplýsingum um hvað er að gerast í skóginum og einnig munum við birta myndir reglulega HÉR á flickr. Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, þá er hægt að senda tölvupóst á netfangið benjaminrs@hi.is eða david@advel.is og um að gera að hafa samband í símatíma milli kl. 11-12 á morgnana í síma: 433-8959.
Fyrir hönd forstöðumanna,
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson