Nú, að morgni mánudagsins 10. júní er algjörlega stórkostlegt veður í Vatnaskógi. Vatnið er spegilslétt, enda blankalogn og ekki ský á himni.
Í gær hélt stuðið heldur betur áfram. Það var vinsælt að kíkja í listasmiðjuna eða á smíðaverkstæðið. Bátarnir voru opnaðir og margir nýttu sér tækifærið og fóru að vaða í vatninu. Kvöldvakan í gær var skemmtileg og fengu strákarnir hvorki meira né minna en tvö leikrit frá starfsmönnum. Þetta voru viðstaddir heldur betur ánægði með.
Í dag ætti að vera eitthvað í boði fyrir alla og reiknum við með að bjóða upp á góða útidagskrá. Drengirnir voru að enda við að borða morgunmat, nýbakað brauð og heitt kakó með. Síðan var sólarvörnin tekin fram fyrir alla viðstadda, því við búumst við mjög sólríkum degi í dag.
Við vonum að allir hafi það gott hjá okkur í dag og skemmti sér vel.
Bestu kveðjur
Ásgeir Pétursson, forstöðumaður