Þá er komið að síðasta heila deginum í flokknum, þessi dagur er jafnan kallaður veisludagur. Það verður fínn matur í kvöld og dagskráin er aðeins með öðru sniði. Dagurinn endar með hátíðarkvöldvöku í kvöld. Ennþá er frábært veður hjá okkur og virðist spáin vera góð fyrir daginn, og reyndar næstu daga.
Flestir eru orðnir aðeins þreyttari og sváfu fast í morgun þegar starfsmenn fóru á fætur. Í dag heldur fjörið síðan áfram, nú þarf að leggja lokahönd á þá gripi og verk sem drengirnar hafa verið að vinna að síðustu daga. Það verður því erfitt val þegar úrslit listakeppninnar verða tilkynnt í kvöld.
Nokkrir drengir hafa unnið að flekagerð síðustu daga ásamt foringum og mögulega verður fleyið prófað á vatninu í dag. Nú hafa bátarnir verið opnaðir, enda fullkomið bátaveður og jafnvel verður hægt að vaða eftir hádegi.
Við erum búin að sjá marga sigra í flokknum að þessu sinni, bæði litla og stóra. Það er því ekki ólíklegt að stoltir strákar yfirgefi skóginn á morgun, kannski nokkrum númerum stærri en þegar þeir komu fyrst 🙂 Flokkurinn er búinn að vera vel heppnaður og þökkum við ykkur fyrir að senda drengina ykkar í Gauraflokk.
Ég minni á heimkomu okkar á morgun en við reiknum með að koma á Holtaveg 28 um kl. 14, sem er annar tími en í öðrum flokkum í Vatnaskógi.
Myndir úr flokknum má sjá hér: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709008510958
Bestu kveðjur úr skóginum
Ásgeir Pétursson, forstöðumaður