Þá er veisludagur genginn í garð hér í fyrri ævintýraflokk sumarsins.

Að loknu kvöldkaffi í gær öttu Stjörnu- og Draumaliðin, skipuð af drengjum, kappi við foringjana í æsispennandi knattleik. Mjótt var á munum framan af en þegar dómarinn flautaði til leiksloka var ljóst að foringjar höfðu sigrað 5-2. Drengirnir sem kepptu eiga hrós skilið fyrir flotta frammistöðu og góðan liðsanda. Framtíðin er sannarlega björt!

Dagskrá dagsins er fremur hefðbundin, en má þar nefna knattspyrnu, frjálsar íþróttir, báta og smíðar.
Þar að auki verður boðið upp á kassaklifur eftir kaffi, þar sem áhugasamir reyna að stafla sér upp á eins marga kassa og þeir geta (fastir í línu og með hjálm).

Að loknum veislukvöldverði verður haldið á veislukvöldvöku, þar sem stútfull dagskrá mun bíða drengjanna langt fram á kvöld.
Úrslit Biblíuspurningakeppninnar verða í hávegum höfð, ásamt leikritum, Sjónvarpi Lindarrjóðri (myndband af vikunni) ásamt bikarafhendingu og fjölmörgum öðrum skemmtilegum uppákomum.

Varðandi heimkomu

Nú styttist í annan endann á þessum flokk og brottfarardagur á morgun.
Rútan mun leggja af stað úr Vatnaskógi kl. 16:00 og verður komin um kl. 17:00 á Holtaveg 28.
Þar verða seldir Vatnaskógarbolir fyrir 2.500. kr.
Foreldrar/forráðamenn sem hyggjast sækja upp í Vatnaskóg eru beðnir um að mæta eigi síður en kl. 15:30.

Þess ber að geta að Hreinn Pálsson, forstöðumaður flokksins, hefur þurft frá að hverfa af svæðinu.
Því hefur Gunnar Hrafn Sveinsson, foringi, tekið við kefli forstöðumanns og mun halda utan um stjórnartaumana, það sem eftir er af flokknum.

Myndir hér: 

Með kveðju,
Gunnar Hrafn Sveinsson
Forstöðumaður

Mynd tekin á degi 3, er farið var í mótorbátsferðir
í Hvalfirði með Björgunarfélagi Akraness.