Veðrið hér í Vatnaskógi eftir hádegi í gær, laugardag, setti dagskrá flokksins úr skorðum, enda var óvenjuheitt og rakt loft ásamt algjöru kyrralogni hér um tíma. Til að bregðast við þessum mjög óvenjulegu veðuraðstæðum ákváðum við að hafa vatnafjör niður við bryggju og bjóða drengjunum að vaða í Eyrarvatni, nú eða stökkva út í og synda lítillega. Til að ná hrollinum úr, opnuðum við heitu pottana á staðnum og er óhætt að segja að flestir hafi skemmt sér vel, enda „enginn verri þó hann vökni ögn“, eins og segir í Skógarmannasönglagi.
Einhverjir drengir héldu til úti í skógi í gærdag í leit að fjársjóðskistu sem var grafinn niður á Vatnaskógarsvæðinu fyrir nokkru, en hópur gamalla Vatnaskógarstarfsmanna keypti á staðinn nokkur málmleitartæki fyrir um 4 árum til að einfalda leitina að fjársjóðnum. Þrátt fyrir að okkur tækist að komast yfir mjög gróft kort af staðsetningunni, tókst drengjunum ekki að finna kistuna og ljóst að fjársjóðurinn mun hvíla í jörðu eitthvað áfram.
Við brugðum síðan út af hefðum hér í skóginum, þegar við höfðum kvikmyndakvöld fyrir svefninn til að kynna fyrir eða rifja upp fyrir drengjunum íþróttagreinina Qidditch, en síðar í dag, sunnudagseftirmiðdag, verður haldið Qidditch mót hér á svæðinu. Annars er dagurinn rétt um það bil að hefjast, morgunmatur verður kl. 9:30, upp úr kl. 10:00 verður haldið af stað í guðsþónustu í Hallgrímskirkju á Saurbæ, að loknu helgihaldi verður grillveisla á bílastæði kirkjunar og síðan verður haldið í sundlaugina á Hlöðum með drengjaskarann.
Dagskráin veldur því að enginn starfsmaður verður við símann í símatímanum í dag milli kl. 11-12. Ef þú þarft að hafa samband við okkur í Vatnaskógi, er hægt að senda tölvupóst á netfangið elli@vatnaskogur.net.
Hægt er að sjá örfáar ljósmyndir frá 9. flokki á Flickr svæði KFUM og KFUK. Slóðin á myndasafnið er: https://www.flickr.com/photos/kfum-kfuk-island/albums/72157709888369367.