Í gær héldum við upp á sjómannadaginn hérna í Vatnaskógi. Ýmsir viðburðir voru við vatnið og má þar einna helst nefna kappróður og ferðir á mótorbátnum.
Smíðaverkstæðið var á sínum stað og eru strákarnir hvattir til að skapa verk fyrir lista- og smíðakeppnina sem er í gangi þessa vikuna. Listasmiðjan var gríðarlega vinsæl í gær enda skemmtileg verkefni þar í boði og margir sem bjuggu til grímur.
Nú eru þeir sem ekki hafa komið áður í Vatnaskóg orðnir skógarmenn, en það eru þeir kallaðir sem hafa gist tvær nætur í Vatnaskógi. Við óskum þeim til hamingju með það.
Í morgun voru flestir fegnir því að hafa fengið góða næturhvíld og var tekið á móti drengjunum með heitu kakói og ilmandi brauði í morgunmatnum. Við höfum þann háttinn á að morgunfræðslan er á meðan flestir eru að klára morgunmatinn í matsalnum.
Nú fyrir hádegi ætlum við að blása upp hoppukastalana okkar og bjóða upp á svokallaða Orrustu, en það er leikur sem svipast til skotbolta. Drengirnir fá mjúka bolta og geta notað hoppukastalana til að fela sig.
Eftir frábært veður síðustu tvo daga rignir nú á okkur. Það kemur þó ekki í veg fyrir stanslaust stuð í skóginum.
Kveðjur úr Vatnaskógi