Í dag er enn einn dýrðardagurinn í Vatnaskógi, 15 stiga hiti, skýjað og hægur vindur. Að venju var nóg um að vera í gær og fengu drengirnir tækifæri til að reyna allt það besta sem Vatnaskógur býður upp á. Einn af hápunktum dagsins var hinn sögufrægi hermannaleikur, hann fer þannig fram að strákunum er skipt í tvo hópa: Oddverjar og Haukdælir. Leikurinn fer fram í Oddakoti og bækistöð Oddverja er í tóftum gamla Oddakotsbýlisins og Haukdælir hafa bækistöð í fjörunni. Drengirnir eru allir með þvottaklemmu klemmda á ermi sína og táknar hún lífið þeirra. Markmiðið er að ná klemmum andstæðingsins og safna saman. Það lið sem stendur uppi með fleiri klemmur að leik loknum er sigurvegari. Að hermannaleiknum loknum fengu strákarnir að vaða í vatninu við Oddakot, en þar er mjög grunnt, þannig að það var baðstrandarstemmning á drengjunum. Eftir kaffitímann var mikið fjör við vatnið og var strákunum boðið upp á að láta draga sig á ,,banana“ eins og sjá má á myndunum. Það var mjög vinsælt og urðu margir mjög blautir, en það gerði lítið til enda 20 stiga hiti og mjög hlýtt.
Í dag er síðasti heili dagur flokksins og þá er alltaf veisludagur, en veisludagur hefst með Brekkuhlaupi. Þá hlaupa þeir sem vilja frá Gamla skála upp að hliðinu, rúmlega 1 km upp brekku. Síðar í dag verður leikur úrvalsliða Svínadeildarinnar og hinn víðfrægi foringjaleikur. Í foringjaleiknum spilar úrvalslið drengja á móti liði starfsmanna – í felstum tilvikum eru drengirnir talsvert betur mannaðir en starfsmennirnir. Að leik loknum hefst veislumatur í matsalnum og veislukvöldvaka. Að sjálfsögðu er önnur dagskrá í boði í dag m.a. bátarnir sívinsælu. Einnig er bandý í íþróttahúsinu og svo ótrúlega margt annað.
Drengirnir koma heim á ný á morgun, heimkoma er kl. 15 að Holtavegi 28.
Drengir sem eru sóttir í Vatnaskóg (fara ekki í rútu) á að sækja í síðasta lagi kl. 14 á morgun.