Í dag mættu um 100 drengir í Vatnaskóg og munu þeir dvelja hér fram á föstudaginn 13.ágúst. Þegar að drengirnir komu hingað byrjuðu þeir á því að velja sér borð í matskálanum til þess að sitja við, borð 1 til 8. Við hvert borð er borðforingi sem annast drengina og hefur gott eftirlit með þeim.
Hér er frábært veður, 15°C og sól. Allt gengur mjög vel. Þetta eru hressir og skemmtilegir drengir sem eru duglegir að taka þátt í því sem er í boði eins og t.d. útileikir, keppnir í ýmsum greinum frjálsra íþrótta, skemmitlegir innleikir, bátar og að ógleymdir smíðastofunni. Rétt eins og íslenska úrvalsdeildin er komin af stað þá er svínadalsdeildin komin á fulla ferð hér í Vatnaskógi en í henni keppa borðin sín á milli. Mjög spennandi. Í kvöld verður svo kvöldvaka að hætti Skógarmanna með leikjum, leikritum, framhaldssögu, hugleiðingu og söng.
Matseðill
Hádegismatur: Lasagna og salat
Kaffitími: Jógúrtkaka, kryddbrauð og appelsínur
Kvöldmatur: Ávaxtasúrmjólk og brauð
Kvöldkaffi: Ávextir og kex
Nokkur orð um heimþrá
Í tæplega 100 manna hópi er ekki ólíklegt að einhverjir drengir finni fyrir heimþrá fyrsta sólarhringinn eða svo. Því þykir mér mikilvægt að útskýra fyrir þeim foreldrum sem áhuga hafa hvaða hugmyndafræði og nálgun við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá. Því er hér smá innlegg.
Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta þeirra sem hér dvelja hverju sinni er heimþrá mikilvæg tilfinning og getur snert okkur öll. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg. Viðbrögð drengjanna eru þannig oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Þegar heimþrá nær tökum á drengjunum, geta þeir komið með ásakanir, lokað sig af, reiðst og/eða notað samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Stundum fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) en getur einnig komið fram sem hausverkur eða stirðleiki í liðum.
Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar og þeir hafa ekki hugmynd um hvernig hægt er að takast á við þær.
Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að tilfinningarnar hefti tækifæri drengjanna til að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að leyfa barninu að njóta sín. Samskipti og samstarf milli allra aðila, barns, foreldra og starfsmanna er lykill að þessu.
Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðaninni að tækifærunum.
Við trúum því að þessi reynsla drengjanna og það að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó hún sé viðurkennd, sé mikilvæg fyrir drengina og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar drengjanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.
Starfsfólk
Foringjar sem annast dagskrá og umönnun drengjanna eru þeir:
Eiríkur Skúli Gústafsson – 1. borð – Yfirforingi
Ísak Jón Einarsson – 2. borð – Bátaforingi
Pétur Bjarni Sigurðarson – 3. borð – Innileikjaforingi
Guðmundur Tómas Magnússon – 4. borð – Birkiskálaforingi
Gunnar Hrafn Sveinsson – 5. borð – Lindarrjóðursforingi
Davíð Guðmundsson – 6. borð – Útileikjaforingi
Þráinn Andreuson – 7. borð – Útileikjaforingi
Benedikt Guðmundsson – 8.borð – Knattspyrnuforingi
Ríkharður Esterason – Frjálsíþróttaforingi
Þeim til halds og trausts er forstöðumaðurinn Hreinn Pálsson.
Eldhúsi og þrifum á staðnum stýrir ráðskonan Tinna Dögg Birgisdóttir. Í eldhúsinu starfa einnig Anna Pálsdóttir, Birta Líf Hannesdóttir, Eva Sigurðardóttir, Jakob Freyr Einarsson og Sigríður Sól Ársælsdóttir.
Þess utan eru ungir aðstoðarforingjar á svæðinu, framtíðarleiðtogar í starfi KFUM og KFUK. Þeir ganga í allskonar verkefni á svæðinu, hvort sem það er aðstoð í gönguferðum, uppvask, smíðar, frágangur og tiltekt á svæðinu eða skipulag leikja undir umsjón foringja. Aðstoðarforingjar þessa vikuna eru þau Baldvin, Hermann, Guðjón, Jónas, Þorri, Markús, Tristan og Eyrún.
Þá er Þórir Sigurðsson í flokknum en hann kemur að ýmsu daglegu viðhaldi á tækjum og húsnæði. Að lokum er einn starfandi vinnumaður í flokknum, hann Fannar Logi Hannesson, sem kemur til með að sinna hinu og þessu, slá grasið og þar fram eftir götunum.
Ef það eru einhverjar spurningar þá er símatími forstöðumanns á milli 11:00 og 12:00 alla daga. Símanúmerið er: 433 8959.
Nýjar myndir koma inn reglulega hér.
Hreinn Pálsson, forstöðumaður