Þá er þriðji dagurinn í 3. flokki farinn af stað. Við í Vatnaskógi fögnum alltaf 3. degi hvers flokks sérstaklega og lítum á þau sem ákveðin tímamót, því að þeir sem eru að koma í fyrsta skipti í Vatnaskóg teljast nú til Skógarmanna, en til þess þarf maður að dvelja tvo sólarhringa í dvalarflokki í Vatnaskógi.
Seinni hluti gærdagsins gekk vel fyrir sig og voru bátarnir mjög vinsælir áfram enda viðraði vel til bátsferða. Ekki nóg með það heldur veiddist hin fínasta bleikja hér í Eyrarvatninu. Frjálsu íþróttirnar og fótboltinn héldu áfram og síðan voru nokkur minni mót sem að klárast, t.a.m. í skák, pool, borðtennis, fótboltaspili og stangartennis. Krakkarnir halda margir áfram síðan að njóta þess að leika í þessum leikjum þó það sé ekki hluti af móti. Í gærkveldi voru síðan heitu pottarnir opnir og margir sem nýttu sér það.
Í dag blæs norðaustan átt hér í Vatnaskógi sem að þýðir að það er þó nokkur vindur og bátarnir því miður lokaðir í morgunsárið, en við vonum að veðrið breytist til hins betra þegar líður á daginn, þó það kunni að taka meira en 5 mínútur að bíða eftir veðurbreytingunni. Skráning í streetball mót hófst í gærkveldi og er keppnin líklega að hefjast á meðan þessi frétt er skrifuð. Við höldum síðan áfram að skemmta okkur hér í Skóginum með fjölbreyttri dagskrá og stefnum að því að bjóða upp á að horfa á Ísland spila við Portúgal í kvöld ef tæknin leyfir. Fleiri myndir úr flokknum eru síðan á leiðinni á flickr myndasíðuna hér.
Með kærri kveðju úr Skóginum,
Benjamín Ragnar Sveinbjörnsson, forstöðumaður
Matseðill dagsins
Morgunmatur: Morgunkorn, brauð og kakó
Hádegismatur: Kjötbollur, kartöflumús og salat
Te-tíminn: norsk tekaka og tebollur
Kvöldmatur: Pylsupasta brauð
Kvöldkaffi: Ávextir