Þá er síðasti heili dagurinn í Gauraflokki runninn upp hjá okkur í Vatnaskógi. Síðasti dagurinn er jafnan kallaður veisludagur, ekki að ástæðulausu þar sem má segja að hann sé einskonar hápunktur hvers flokks í Vatnaskógi. Dagskráin er ekki af verri endanum í dag og verður öllu til tjaldað. Pottarnir verða opnir í allan dag og drengirnir hvattir til að skella sér ofaní. Síðar í dag mun Vatnaskógarvíkingurinn fara fram, en það er kraftakeppni þar sem drengirnir geta spreytt sig á hinum ýmsu aflraunum.
Í gær urðu drengirnir sem voru að koma í fyrsta skipti Skógarmenn, en þann titil hljóta allir þeir sem gista tvær eða fleiri nætur í drengjaflokki í Vatnaskógi. Við óskum þeim til hamingju með að vera komnir í hóp þúsunda annarra.
Í gær var hæfileikasýning hjá okkur og var gaman að sjá fjölbreytt og skemmtileg atriði sem flutt voru.
Eftir að hafa borðað veislumat í kvöld verður hátíðarkvöldvaka í Gamla skála með skemmtiatriðum sem eiga sér enga hliðstæðu. Þá mun fara fram verðlaunaafhending fyrir þær keppnir sem hafa farið fram í flokknum, það má því búast við að þakið rifni af kofanum í kvöld.
Við vekjum athygli á að heimkoma er um kl. 14 á morgun, miðvikudag.