Það líður að lokum 2. flokks sumarsins í Vatnaskógi 2025 – veðrið hefur heldur betur leikið við okkur og hafa drengirnir buslað í vatninu nánast daglega það má því fara ræsa þvottavélarnar heim þar sem að sennilega er megnið af fatniði drengjanna óhreinn. Í dag var veisludagur en þá breytum við dagskránni og bjóðum m.a. upp á hinn víðfræga foringjaleik, en þá keppa úrvalslið og landslið drengja við foringjana. Það er alltaf mikil spenna fyrir leikinn sem fer engu að síður fram í mesta bróðerni og í dag sigruðu foringjarnir 5-1. Í dag var aðsjálfsögðu hægt að fara á báta, stökkva í vatnið, reyna sig áfram í frjálsum íþróttum og öðrum leikjum.

Í kvöldmat var boðið upp á ljúfengt svínasnitsel með tilheyrandi meðlæti. Eftir kvöldmat hófst kvöldvaka sem að þessu sinni var í þremur hlutum, en bikaraafhending fór fram utandyra og fengu drengirnir margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir þátttöku í hinum ýmsu keppnum sem hér fóru fram, að bikaraafhendingu lokinni var haldið í Gamla skála þar sem að leikrit var sýnt, úrslit biblíuspurningakeppninnar fór fram og sjónvarp flokksins var sýnt. Kvöldinu lauk með kvöldkaffi og stuttri hugvekju og var komin ró í svefnsölum kl. 23.00.

Á morgun 16. júní er heimferðardagur  og er áætluð heimkoma að Holtavegi 28 kl. 15. Hægt verður að vitja óskilamuna strax við heimkomu.
ATH. mikilvægt er að láta vita ef drengir fara ekki heim með rútu svo hægt sé að halda farangrinum aðskildum, þeir drengir sem ekki fara með rútu verða að vera sóttir fyrir kl. 13.30.

Hér eru svo myndir, en það munu bætast fleiri við. 

Með kveðju, forstöðumenn flokksins – Jón Ómar Gunnarsson og Þráinn Haraldsson.