Veisludagur
Þá er síðasti heili dagurinn hafinn hér hjá okkur í Vatnaskógi og dagskráin er þétt. Brekkuhlaup í frjálsum íþróttum, þythokkímót, Kristalsbikarinn (bikarkeppni í knattspyrnu), bátar og veiðar og ævintýri í skóginum svo eitthvað sé nefnt. Eftir hádegi verður lögð áhersla á ævintýradagskrá eins og Wipeout og ultimate frisbee. Drauma- og stjörnulið keppa einnig í knattspyrnu seinna í dag og svo verður boðið upp á vatnafjör og heita potta fram að kvöldmat. Þetta og meira framundan hér í Vatnaskógi.
Dagskrá kvöldsins er svo eitthvað í þessa átt. Veislumatur um kvöldið, myndataka og kvöldvaka sem er af lengri og dýrari gerðinni, með bikarafhendingu, Biblíuspurningakeppni, leikritum, Sjónvarp Lindarrjóðri og léttu skonrokki að hætti foringjanna. Svo eigum við eitt óvænt útspil fyrir drengina í kvöldkaffinu, held að það verði mikil ánægja með það.
Matseðill
Fimmtudagurinn 26. júní – veisludagur
Morgunverður: Morgunkorn og mjólkurvörur, kakó og brauð
Hádegisverður: Úrvals afgangar frá vikunni (enga matarsóun hér takk) ásamt pasta og fleira með (NAMM)
Síðdegishressing: Veislukaka, smákaka og brauðbollur
Kvöldverður: Schnitzel og veglegt meðlæti + baukur
Kvöldhressing: Kex og mjólk
Miðvikudagurinn 25. júní
Morgunverður: Morgunkorn og mjólkurvörur
Hádegisverður: Ýsa í raspi, kartöflur, salat og sósa
Síðdegishressing: Sjónvarpskaka, pizzasnúður og súkkulaðibitakaka
Kvöldverður: Grillaðir hamborgarar og með því
Kvöldhressing: Ávextir og kex
Dagskráin á heimkomudegi
Drengirnir hafa verið vaktir kl. 9:00 á morgnana en á brottfarardag er venja að gefa þeim ögn lengri svefn. Haninn mun því gala
kl. 09:30, þá munu drengirnir fara í morgunmat, pakka í töskur, finna dótið sitt og halda svo út í frjálsan tíma og skipulagða hópleiki. Því næst verður haldið í hádegismat, í flatbökuveislu að hætti Vatnaskógar og síðan verða óskilamunir kynntir sem fundist hafa á víð og dreif um svæðið.
Matseðill
Föstudaginn 27. júní
Morgunverður: Morgunkorn og mjólkurvörur, kakó og brauð
Hádegisverður: Pizza og ís í eftirrétt
Rútan leggur af stað frá Vatnaskógi kl. 14:00 og áætluð koma á Holtaveg 28 er því kl. 15:00.
Þau ykkar sem hyggjast sækja drengina sína í Vatnaskóg eru beðin um að koma eigi síðar en kl. 13:30. Vinsamlegast látið vita ef þið ætlið að sækja ykkar drengi sjálf ef þeir eru skráðir í rútuna heim, svo töskurnar þeirra fari ekki upp í rúturnar. Þeir sem verða sóttir í Vatnaskóg munu koma farangri sínum fyrir framan matskálann. Endilega látið vita sem fyrst en símatíminn er eins og fyrr segir milli kl. 11:00-12:00 og síminn er 433 8959.
Allir óskilamunir sem ekki skila sér til drengjanna í Vatnaskógi munu fara á Holtaveg 28 í Reykjavík, félagsheimili KFUM og KFUK.
Þetta er síðasta færslan frá 4. flokki 2025. Við sem störfum í Vatnaskógi erum þakklát fyrir það traust sem foreldrar sína okkur með því að senda börn sín í sumarbúðir og tökum það traust alvarlega. Það er og metnaður okkar sem störfum í Vatnaskógi að gera gott starf enn betra. Ef þú hefur ábendingar, athugasemdir eða vilt hafa samband við okkur hér í Vatnaskógi í tengslum við 4. flokk getur þú sent tölvupóst á arsaell@kfum.is eða haft samband við skrifstofu KFUM og KFUK í Reykjavík, sími 588 8899.
Myndasíðan okkar er hér fyrir neðan.
Með virðingu og þökk,
Hreinn Pálsson, forstöðumaður