Fyrr í dag mættu 55 hressir drengir í Vatnaskóg. Flestir komu með rútu og hinir tóku á móti okkur rútufarþegunum með fögnuði. Veðrið hefur leikið við okkur í dag, hlýtt og smá gola. Drengirnir eru allir hinir prúðustu og una sér greinilega vel hér í Vatnaskógi. Eftir hádegisverð fórum við allir saman upp á svokallaða Kapelluflöt. Útileikjaforinginn stýrði hópleikjum í blíðunni og hópurinn þar með efldur og hristur saman. Bátarnir voru opnir í dag og hafa flestir drengirnir prófað að fara út á árabát, hjólabát eða kanó. Á efri hæð bátaskýlisins er eftirsótt smíðaverkstæði þar sem drengirnir fá að spreyta sig á tálgun og trésmíði undir leiðsögn smíðaforingjans. Frjálsíþróttamótið er hafið. Fyrsta grein var kúluvarp og sá sem varpaði kúlunni lengst varpaði henni 5,60m. Þá var einnig boðið upp á fótbolta, borðtennis, einakrónu og skák.
Drengirnir hafa fengið nóg að borða. Á boðstólunum í dag var eftirfarandi:
- Hádegisverður: Lasagna og hvítlauksbrauð.
- Síðdegishressing: Skúffukaka, pizzasnúðar og kanillengjur.
- Kvöldverður: Grjónagrautur með kanilsykri og rúsínum.
- Kvöldhressing: Kex og mjólk.
Næst á dagskrá er kvöldvaka. Á henni komum við allir saman og eigum góða kvöldstund. Við syngjum Vatnaskógarsöngva, sjáum leikrit, heyrum framhaldssögu, hlustum á hugleiðingu og biðjum saman.
Að kvöldvöku lokinni fara drengirnir í háttinn og safna kröftum í nótt fyrir komandi degi. Fyrir háttinn er í boði að fara út í Kapellu á kapellustund eins og hefð gerir ráð fyrir.
Ekki hefur borið á heimþrá hjá neinum í flokknum. Ég læt þó fylgja með að neðan greinarstúf um heimþrá og hvernig við í Vatnaskógi tæklum hana.
Ég minni á símatíma forstöðumanns kl. 11:00–12:00 alla daga. Símanúmerið er 433-8959.
Myndasíða flokksins er hér. Von er á fleiri myndum á morgun.
Með góðum kveðjum,
Matthías Guðmundsson,
forstöðumaður.
Nokkur orð um heimþrá
Í rúmlega 50 manna hópi er ekki ólíklegt að einhverjir drengir finni fyrir heimþrá fyrsta sólarhringinn eða svo. Því þykir mér mikilvægt að útskýra fyrir þeim foreldrum sem áhuga hafa hvaða hugmyndafræði og nálgun við aðhyllumst í þessum flokki í Vatnaskógi í tengslum við heimþrá. Því er hér smá innlegg.
Þrátt fyrir að heimþrá hafi ekki mikil áhrif nema á mjög lítinn hluta þeirra sem hér dvelja hverju sinni er heimþrá mikilvæg tilfinning og getur snert okkur öll. Heimþrá snýst um missi og er þannig nátengd sorg. Viðbrögð drengjanna eru þannig oft eins og skyndikúrs í sorgarviðbrögðum. Þegar heimþrá nær tökum á drengjunum, geta þeir komið með ásakanir, lokað sig af, reiðst og/eða notað samningatækni til að takast á við vanlíðan/sorgina. Stundum fylgir líkamleg vanlíðan, oftast nær í tengslum við magann (eða meltingarkerfið) en getur einnig komið fram sem hausverkur eða stirðleiki í liðum.
Fullorðnir einstaklingar þekkja væntanlega flest þessi einkenni, enda fullkomlega eðlileg viðbrögð við áfalli og breyttum aðstæðum. Fyrir marga drengina í sumarbúðum eru þessar sveiflukenndu og sterku tilfinningar hins vegar nýjar og jafnvel áður óþekktar og þeir hafa ekki hugmynd um hvernig hægt er að takast á við þær.
Í Vatnaskógi leggjum við áherslu á að takast á við þessar tilfinningar í samráði við foreldra og höfum samband strax og við teljum að tilfinningarnar hefti tækifæri drengjanna við að njóta dvalarinnar. Það að við höfum samband merkir samt alls ekki að við teljum að viðkomandi drengur þurfi að fara heim, heldur miklu fremur viljum við að þekking foreldra á barninu nýtist til að hjálpa okkur að finna leiðir til að leyfa barninu að njóta sín. Samskipti og samstarf milli allra aðila, barns, foreldra og starfsmanna er lykill að þessu.
Aðferðafræðin í heimþrármálum hérna í Vatnaskógi þessa vikuna er sú að hjálpa barninu að brjótast út úr sorgarferlinu, sættast við umhverfi sitt og sjá tækifærin í dvölinni. Þannig viðurkennum við og skiljum tilfinningarnar en reynum að beina athygli þeirra frá vanlíðaninni að tækifærunum.
Við trúum því að þessi reynsla drengjanna og það að láta ekki stjórnast af vanlíðan, þó hún sé viðurkennd, sé mikilvæg fyrir drengina og hjálpi þeim til að þroska tilfinningar sínar og andlegt atgervi. Við skiljum þó líka að það getur gerst að aðstæður, upplifun og tilfinningar drengjanna séu þess eðlis að þeir eru einfaldlega ekki tilbúnir til að takast á við dvölina og þurfa að vera skemur en áætlað var í upphafi. Það gerist þó mjög sjaldan.
Ef það eru einhverjar spurningar þá er símatími forstöðumanns á milli 11:00 og 12:00 alla daga. Símanúmerið er: 433 8959.