Vér Skógarmenn skulum nú syngja!

Í morgun ilmaði svæðið af nýbökuðu brauði og heitu súkkulaði þegar drengirnir gengu til morgunverðar. Við fögnum alltaf 3. degi hvers flokks sérstaklega og lítum á þann dag sem ákveðin tímamót, því að þeir sem eru að koma í fyrsta skipti í Vatnaskóg teljast nú til Skógarmanna, en til þess þarf maður að dvelja tvo sólarhringa hér í dvalarflokki.

Á morgunstund fengu drengirnir að heyra söguna um hann Gussa (Þú ert frábær). Okkur hættir stundum til að lyfta sumu fólki á stall, fundist einn merkilegri en annar ef hann er gáfaðri, fallegri eða fimari! Gussi er að glíma við að fólkið í bænum hans er einmitt að stimpla hann heimskan, misheppnaðan og dæma hann eftir útlitinu. Boðskapur sögunnar er að í augum Guðs erum við öll jafn mikilvæg og Gussi lærir að láta ekki neikvæðar athugasemdir frá öðrum festast við sig.

Dagskrá dagsins

Tíminn líður hratt og dvölin nú hálfnuð. Fjölmörg tilboð verða á boðstólnum í dag fyrir drengina. Wipeout braut, Svínadalsdeildin hjá Benna BOMBU, bátar, smíðar, varúlfur, tuðrudráttur, hjólabílarallý, róðrakeppni, brandarahorn sr. Guðna, körfuboltamót, kringlukast, langstökk, 1500 m. spretthlaup, hæfileikasýning og Mr. Beast áskorunin ,,Síðastur til að taka höndina af Gamla skála.“
Ef þetta er ekki nóg, þá hjálpi mér hamingjan!

Matseðill dagsins

Hádegisverður: Lasagna og hvítlauksbrauð
Síðdegishressing: Nýbakað bakkelsi af bestu gerð
Kvöldverður: Grjónagrautur
Kvöldhressing: Ávextir

Hér má sjá myndir: Myndasíða 8. flokks

Með Skógarmannakveðju,
Gunnar Hrafn, forstöðumaður