Vatnaskógur er í Svínadal í Hvalfjarðarsveit rétt um 80 km frá Reykjavík. Vatnið, skógurinn og fjöllin í kring bjóða upp á ótæmandi möguleika til spennandi útiveru og leikja. Á svæðinu er auk þess stórt íþróttahús, fótbolta- og frjálsíþróttavellir, smíðaverkstæði og bátar.
Umhverfis Vatnaskóg eru margir forvitnilegir staðir sem gaman er að skoða. Þar fá börnin tækifæri til að prófa nýja hluti og fá útrás fyrir hugmyndaflug og ævintýraþrá. Öll kvöld enda með kvöldvöku þar sem brugðið er á leik og sungið. Auk þess er kafli úr Guðs orði hugleiddur kvölds og morgna.
Í hefðbundnum vikuflokki að sumri er boðið upp á fjölbreytta dagskrá við allra hæfi. Meðal dagskráratriða eru bátsferðir, stangveiði, skógarferðir, gönguferðir, knattspyrnu, körfubolta, frjálsar íþróttir, bandý, hermannaleik og borðtennis. Sérhannaðir kassabílar hafa líka notið mikilla vinsælda.
Í hverjum flokki í Vatnaskógi dvelja 95 börn.
Aðstaðan í Vatnaskógi
- Gamli skáli er elsta hús staðarins (vígður 1943) með gistirými fyrir 48 dvalargesti í þremur svefnsölum og tveimur minni herbergjum. Í skálanum er kvöldvökusalur fyrir rúmlega 100 manns með arni, hljóðfærum og skjávarpa.
- Birkiskáli er nýjasta hús staðarins, tekið að fullu í notkun í maí 2018. Þar er gistirými fyrir 120 dvalargesti í tuttugu herbergjum. Þar er góð sturtuaðstaða. Þrjár setustofur eru í húsinu, ein fyrir um 30 manns og tvær fyrir um 10. Þá er góður samkomusalur í húsinu með sæti fyrir a.m.k. 120 einstaklinga.
- Matskálinn er með matsal sem tekur yfir 100 manns í sæti og eldhús sem búið er fullkominni eldunar- og uppþvottaaðstöðu.
- Íþróttahús er með 350 fm íþróttasal, góðum íþróttadúk á gólfi og 6 m lofthæð. Þá er í húsinu notaleg setustofa og leiksvæði með ýmsum leiktækjum. Góð sturtuaðstaða er í íþróttahúsinu. Við íþróttahúsið eru einnig heitir pottar.
- Bátaskýli er við Eyrarvatn. Í því eru geymdir bátar sem vinsælt er að nýta til fiskveiða og annarrar skemmtunar á sumrin.
- Kapellan er lítið og fallegt bænahús í rjóðri rétt hjá Gamla skála. Fallegur upplýstur göngustígur liggur að kapellunni.
- Íþróttaaðstaðan í Vatnaskógi hefur þrjá grasvelli, malarvöll, hlaupabraut, kastaðstöðu, stökkgryfju og hjólabrettapall.
- Leiktæki eru af ýmsum toga. Má þar nefna kassabíla, stultur, bolta, töfl og spil af ýmsum gerðum.
- 220 hektara skógur (hæstu tré um 10 metrar) er innan girðingar í Vatnaskógi og liggja stígar um skóginn. Fjölfarinn stígur liggur inn að eyðibýlinu Oddakoti sem er við austurenda Eyrarvatns. þangað er um 20 mínútna gangur úr Lindarrjóðri, en svo heitir svæðið næst húsunum í Vatnaskógi. Í nágrenni Vatnaskógar eru einnig margir skemmtilegir fossar og fjöll.