Í fjölskylduflokkum í Vatnaskógi er mikil áhersla lögð á notalegt andrúmsloft. Þar gefst fjölskyldunni tækifæri til að eiga góðan tíma saman í fallegu og afslöppuðu umhverfi. Engar áhyggjur af matseld né uppvaski – starfsmenn Vatnaskógar dekra við ykkur. Einu vandamál helgarinnar gætu orðið að velja hvort spila eigi borðtennis og þythokký við börnin áður en farið er í heita pottinn eða öfugt!

Dagskráin er í senn skemmtileg og uppbyggileg. Nokkrir hápunktar eru þó umræðustund foreldra meðan börnin leika sér í íþróttahúsinu með starfsfólki Vatnaskógar. Skógarmannakvöldvökurnar eru sígildar með kraftmiklum söng, mögnuðum skemmtiatriðum og andlegu veganesti. Bátar (þegar hægt er), íþróttahúsið, föndursmiðja og hæfileikasýning slá alltaf í gegn hjá börnunum.

Gert er ráð fyrir því að hver fjölskylda hafi sér herbergi og geti því notið tímans í Vatnaskógi á eigin forsendum í bland við skemmtilega dagskrá.

Útbúnaður
Rétt er að hafa búnað til útiveru s.s. stígvél eða gönguskó, regngalla, hlý útiföt, föt til skiptanna, húfu, stuttbuxur, sundföt (f. þá sem vilja fara í heita potta) og íþróttaskó til notkunar í íþróttahúsi og annað sem þið teljið nauðsynlegt.  Einnig þarf að vera með sæng eða svefnpoka og kodda.

Skráning í fjölskylduflokka er í Þjónustumiðstöð KFUM og KFUK, Holtavegi 28, s.588 8899 (alla virka daga kl. 9 – 17). Frítt fyrir börn á leikskólaaldri með foreldrum.

Fjölskylduflokkur er tilvalin fyrir fjölskyldur stórar sem smáar til að…

  • njóta þess að vera saman.
  • fara í gönguferðir í fallegu umhverfi.
  • leika sér í íþróttum og leikjum.
  • vera með á Skógarmannakvöldvökum.
  • taka þátt í fræðslustundum.
  • skapa í listasmiðjunni.