Bygging kapellunnar
Kapellan var reist árið 1948 en innréttuð og vígð sumarið 1949. Bjarni Ólafsson (þá 25 ára gamall) kennari gerði teikningu hennar en Ólafur Guðmundsson húsasmíðameistari, faðir hans, var yfirsmiður hennar og hóf að reisa hana vorið 1948 ásamt Sveini Jónssyni samstarfsmanni sínum. Var kapellan tilbúin til innréttingar áður en sumarið 1948 var á enda og var byrjað að nota hana um leið og gólf hafði verið steypt.
Næsta vor var svo hafist handa um innréttingu kapellunnar. Þiljur og tilheyrandi lista og skraut á veggi smíðaði Aðalsteinn Thorarensen (þá 23 ára gamall), húsgagnasmiður og iðnskóla-kennari, en bekkina og gráðurnar teiknaði Bjarni Ólafsson og vann að smíði þeirra og uppsetningu ásamt Ólafi föður sínum. Kapellan var síðan vígð sunnudaginn 24. júlí 1949 og annaðist séra Sigurjón Guðjónsson vígsluna, þáverandi prófastur á Saurbæ á Hvalfjarðarströnd.
Þess má og geta að í tilefni 50 ára vígsluafmælis kapellunnar hafði Gunnar Bjarnason, sonur Bjarna og sonarsonur Ólafs Guðmundssonar, umsjón með viðgerð og lagfæringu á kapellunni á árunum 1997-1999.
Á 60 ára vígsluafmælis kapellunnar árið 2009 kom tók hópur gamalla Vatnaskógardrengja að sér að sjá um viðhald og endurnýjun á kapellunni sem fólst í því að endurnýja þak kapellunnar, þakið einangrað, klætt með eir og fleiri viðhaldsverkefni. Sá hópurinn bæði um verkþætti og fjármögnun á þeim.
Stytta Bertels Thorvaldsens af Kristi
Það sem vekur augað, þegar komið er inn í kapelluna, er Kristsmynd úr postulíni, eftirmynd af listaverki Bertels Thorvaldsens, hins dansk-íslenska myndhöggvara sem heimskunnur er af verkum sínum. Á fótstall myndarinnar eru rituð orð Jesú Krists: „Komið til mín“ (Matt.11:28). Styttu þessa gaf Haraldur Árnason, kaupmaður í Reykjavík um áratugi. Vildi hann með því sýna sérstakan vináttuvott félaginu og stofnanda þess séra Friðriki Friðrikssyni.
Útskorið vers á gafli ásamt myndum af lambi og dúfu
Það næsta sem vekur athygli er letur á vegg, beggja vegna altaris. Þar eru skráð ritningarorð úr 51. sálmi Davíðs, versi 12: „Skapa í mér hreint hjarta, ó, Guð og veit mér að nýju stöðugan anda.“ Þessi bænarorð eru gjarnan notuð sem lokabæn á bænastundum í kapellunni og jafnvel sungin líka. Tilefni þess að þessi orð voru valin á vegginn má rekja til þess að í kvöldsöng Skógarmanna, sem hefst á orðunum „Ó, vef mig vængjum þínum,“ segir í 2. versinu: „Tak burtu brot og syndir með blóði, Jesú minn, og hreint mér gefðu hjarta og helgan vilja þinn.“
Síðan beinist athyglin að tveimur útskornum myndum í viðeigandi hringlaga ramma ofan við versið úr sálmi 51. Vinstra megin við altarið, ofan við orðin: „Skapa í mér hreint hjarta, ó, Guð,“ er mynd af lambi sem minnir á orðin sem Jóhannes skírari viðhafði um Krist: „Sjá Guðs lamb, sem ber synd heimsins“ (Jóh. 1:29). Lambið er einnig tákn fyrir sakleysið og hið hreina hjarta og berandi sigurfánann bendir það fram til þeirrar stórkostlegu myndar sem dregin er upp fyrir lesandanum í Opinberunarbók Jóhannesar af hinu sigursæla lambi (Kristi) í hásæti Guðs (Op. Jóh. 5-22). Hægra megin við altarið, ofan við orðin: „og veit mér að nýju stöðugan anda,“ er síðan mynd af dúfu, en dúfan er að jafnaði tákn Heilags Anda í myndmáli kirkjunnar. Myndir þessar gerði Ríkharður Jónsson, útskurðarmeistari, sem bar vinarhug til KFUM og séra Friðriks. Var hann þátttakandi í félagsstarfinu á yngri árum.
Bænaker
Á norðurvegg, til vinstri við altarið, hangir lítið ljósker rautt að lit. Í kaþólskum kirkjum eru slík ker stundum höfð fyllt olíu og með ljósi í sem ávallt er logandi til merkis um að bænin má aldrei bresta þig, eða slokkna. Þetta ljósker var gefið kapellunni í tilefni af 80 ára afmæli Kristjáns Sighvatssonar, eins brautryðjenda sumarbúðastarfsins. Nokkrir vinir hans gáfu þessa gjöf.
Hringlaga gluggi á gafli
Efst á gafli kapellunnar má sjá litaðan hringlaga glugga með grísku stöfunum Khi (k) og Rho (r) sem eru fyrstu tveir stafirnir í orðinu KRISTUR á grísku. Gluggi þessi var gerður í Danmörku fyrir milligöngu Þórðar Möller læknis er dvaldist þá á þeim slóðum.
Munir á altari
Á altari er lítil askja með versum úr Biblíunni: „Orð Guðs til þín“ og önnur stærri með svonefndum mannakornum, en það eru litlir miðar með áprentuðum tilvísunum á ýmsa ritningarstaði. Er gjarnan dregið úr öskju þessari ritningarorð til upplestrar við bænastundir. Öskju þessa gáfu Kaldæingar úr KFUM í Hafnafirði, 1. ágúst 1943 í tilefni vígslu Gamla skála.
Kertastjakar
Á altari standa einnig tveir veglegir kertastjakar sem eru gjöf frá Gylfa Þ. Gíslasyni, þáverandi menntamálaráðherra, en hann gaf þá til minningar um fósturson séra Friðriks, Aldolf Guðmundsson sem þá var ný látinn.
Þriggja arma kertastjakar
Aðrir munir í kapellunni eru til dæmis tveir þriggja arma kertastjakar á tréstalli sitt hvoru megin við altarið. Þeir eru gjöf frá svonefndum utanfararflokki Skógarmanna sem fór árið 1950 til Danmerkur og Svíþjóðar til þess að endur-gjalda heimsókn danskra FDF-pilta (Frivillig Drenge-Forbund) og sænskra skáta, sem heim-sóttu Skógarmenn sumarið 1948.
Krossar
Á miðjum vegg ofan við altarið er lítill róðukross og annar við útgöngudyrnar, báðir gefnir kapellunni af vinarhug en ekki liggur ljóst fyrir hverjir gefendur voru.
Ljósakróna
Ný ljósakróna var sett upp árið 2012 og var gjöf frá velunnurum Vatnaskógar.
Kirkjuklukka
Í þakskeggi kapellunnar fyrir dyrum úti hangir lítil kirkjuklukka sem stundum er notuð til að hringja inn athafnir í kapellunni. Þar hafa stundum fuglar gert sér hreiður.
Athafnir í kapellunni
Fyrsta skráða athöfnin í kapellunni var bænastund sem þar var haldin daginn eftir að gólf kapellunnar var steypt sumarið 1948. Síðan hafa ótal athafnir farið þar fram og meðal annars nokkrar altarisgöngur, skírnir og giftingar.
Upplýsingar um kapelluna og nágrenni hennar voru teknar saman af Árna Sigurjónssyni og Þórarni Björnssyni. Uppfært 2013.